Fótbolti

City komst á blað með jafntefli | Sjáðu mörkin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Agüero skoraði mark City úr víti.
Agüero skoraði mark City úr víti. vísir/getty
Manchester City og Roma gerðu 1-1 jafntefli í E-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. City er þar með komið með eitt stig í riðlinum eftir tvær umferðr en Roma er með fjögur.

City komst yfir með marki Sergio Agüero úr vítaspyrnu strax á fjórðu mínútu en hann hafði fengið vítið sjálfur eftir brot Maicon.

Maicon, sem lék áður með City, var svo hársbreidd frá því að jafna metin aðeins mínútu síðar er hann þrumaði knettinum framhjá Joe Hart í marki heimamanna og í slá.

Gervinho komst svo í gott færi stuttu síðar en það var hinn 38 ára gamli Francesco Totti sem tókst að koma Rómverjum á blað í leiknum. Það gerði hann með laglegri vippu á 23. mínútu eftir stungusendingu Radja Nainggolan.

Roma hélt áfram að sækja en Hart var vel á verði í marki Englendinganna. En eftir því sem leið á síðari hálfleikinn komust City-menn betur inn í leikinn en hvorugu liðinu tókst þó að skora sigumarkið.

Fyrr í dag vann Bayern München 1-0 sigur á CSKA Moskvu í sama riðli. Bæjarar eru með fullt hús stiga í E-riðli en Rússarnir eru enn án stiga.

Sergio Agüero kom Manchester City yfir úr vítaspyrnu á 4. mínútu: Francesco Totti skoraði fyrir Roma á 23. mínútu:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×