Á meðan formúlugoðsögnin Michael Schumacher er í endurhæfingu eftir höfuðhöggið sem hann varð fyrir í frönsku Ölpunum í lok síðasta árs þá stendur yngri bróðir hans í erfiðum skilnaði. Það reynir því mikið á Schumacher-fjölskylduna þessi misserin.
Þýska blaðið Closer segir frá því í dag að Ralf Schumacher, 39 ára bróðir Michael, hafi nú einungis samband við eiginkonu sína Coru í gegnum lögfræðinga.
Bild er einnig með fréttir af skilnaði Ralf en hann og eiginkona hans bítast nú um þær 100 milljónir evra sem Ralf hefur unnið sér inn, húsin þeirra í Þýskalandi, Austurríki og Frakklandi sem og forræðið yfir 13 ára syni þeirra David.
Ralf Schumacher er sex árum yngri en Michael og keppti á sínum tíma fyrir formúluliðin Jordan, Williams og Toyota en best náði hann fjórða sæti í keppni ökumanna 2001 og 2002 þegar hann keppti fyrir BMW Williams.
Cora-Caroline Brinkmann hefur verið eiginkona Ralf Schumacher síðan 2001 en hún vann sem fyrirsæta. Þau eignuðust drenginn í október 2001 eða tæpum mánuði eftir að þau giftu sig.

