Golf

Jimenez vill vera fyrirliði Evrópu í næsta Ryder-bikar

Jimenez á sér marga aðdáendur enda lífsglaður með eindæmum.
Jimenez á sér marga aðdáendur enda lífsglaður með eindæmum. AP/Getty
Spánverjinn litríki, Miguel Angel Jimenez, hefur gefið það út að hann væri til í að vera fyrirliði Evrópuliðsins í næsta Ryder-bikar sem fram fer á Hazeltine vellinum í Bandaríkjunum árið 2016.

Jimenez er sjálfur einn sigursælasti kylfingur í sögu Evrópumótaraðarinnar en hann hefur sigrað í 25 atvinnumótum á ferlinum.

Þá er hann einnig hokinn af reynslu í Rydernum en hann hefur fjórum sinnum verið meðlimur í liði Evrópu ásamt því að hafa verið aðstoðarmaður fyrirliða tvisvar, fyrst hjá Seve Ballesteros árið 1997 og síðan aftur á Gleneagles í síðasta mánuði þar sem hann aðstoðaði Paul McGinley.

Ég myndi elska að fá tækifæri til að leiða Evrópuliðið, að vera fyrirliði er eitthvað sem alla kylfinga sem hafa leikið í Rydernum dreymir um,“ sagði Jimenez við fréttamenn í Hong Kong, þar sem hann freistar þess að verja titil sinn á Opna Hong Kong mótinu í þriðja sinn í röð um helgina.

Ég hef látið alla vita að ég hef áhuga á að fá þetta verkefni og vonandi verður mér treyst fyrir þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×