Innlent

Þeir sem eru með ælupest eiga ekki að drekka kóladrykki

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Þórður G. Ólafsson er yfirlæknir Læknavaktarinnar.
Þórður G. Ólafsson er yfirlæknir Læknavaktarinnar.
„Þessi ælupest sem er að ganga núna er að mér sýnist nokkuð hefðbundin ælupest, en það er klárlega meira um hana en venjulega,“ segir Þórður G. Ólafsson, yfirlæknir á læknavaktinni og Heilsugæslustöð Efra-Breiðholts og heldur áfram:

„Þessi pest gengur yfirleitt fljótt yfir. Fólki er óglatt og það ælir einn daginn en er jafnvel orðið frískt og mætt til vinnu daginn eftir.“

Hann segir mikilvægt að gæta að handþvotti og almennu hreinlæti. Þórður mælir með því að fólk drekki ekki kóladrykki þegar það er með ælupest. „Nei, kóladrykkir eru ekki góðir við magapestum. Þeir innihalda mikinn sykur, mikið koffein og svo eru þessir drykkir súrir í raun og veru, þeir eru með lágt PH-gildi. Það er ekki gott að drekka svona drykki þegar maður er með magakveisu. Til dæmis eykur koffein á þarmahreyfingar. Allt sem er sykrað getur aukið á niðurgang. Svo á maður á að forðast drykki með súrt innihald þegar maður er með magapest.“  

Hann segir mikilvægt að innbyrða eitthvað sem inniheldur salt, sykur og vatn í réttum hlutföllum, þegar maður er með ælupest. „Til dæmis tærar bollasúpur. Síðan er jafnvel gott að fá sér sopa af Gatorade.“ Þóður leggur áherslu á að drekka lítið af vöka í einu en drekka þá frekar oftar. Sama á við þegar maður byrjar að borða fasta fæðu, eftir að pestin er gengin yfir. „Í fyrstu er ráðlegt að forðast sætindi; forðast sykur. Forðast það sem er tormelt, auk þess sem ég mæli með því að borða ekki sterkan eða brasaðan mat fyrstu dagana á meðan maður er að jafna sig.“

Þórður mælir með léttari mat fyrstu dagana eftir að magakveisan er gengin yfir. „Já, til dæmis getur verið gott að borða pasta, ristað brauð, tærar súpur og soðinn fisk. Eitthvað sem er létt í magann. Venjulega getur maður farið á almennt fæði mjög fljótt eftir að uppköstin eru búin. En það er mikilvægt að borða lítið í einu fyrst um sinn til þess að hlífa meltingarveginum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×