Lilja Lind Helgadóttir varð í gær norðurlandameistari unglinga í ólympískum lyftingum annað árið í röð. Hún sló jafnframt norðurlandamet í jafnhendingu stúlkna undir 20 ára þegar hún lyfti 103 kg.
Lilja lyfti 80 kg. í snörun og reyndi við 85 kg. sem hefði verið norðurlandarmet en það fór ekki upp. Hún endaði því með 183 kg. samanlagt.
Freyja Mist Ólafsdóttir varð sömuleiðis norðurlandamestari í -75 kg. flokki, hún lyfti 65 kg. í snörun og 80 kg. í jafnhendingu. Í sama flokki varð Auður Ása Maríasdóttir í öðru sæti. Hún lyfti 63 kg. í snörun og 75 kg. í jafnhendingu.
Sólveig Sigurðardóttir var í gífurlega erfiðum riðli en hún lenti í þriðja sæti í -63 kg. flokki. Hún lyfti 63 kg. í snörun og 75 kg. í jafnhendingu. Hún reyndi við 80 kg. í jafnhendingu til að tryggja sér annað sætið og var grátlega nálægt því.
Í dag keppa svo íslensku strákarnir en fyrir hönd Íslands keppa Emil Ragnar Ægisson, Guðmundur Högni Hilmarsson, Högni Hjálmtýr Kristjánsson, Hilmar Örn Jónsson og Stefán Velemir.
