Fótbolti

Olympiakos skellti Juventus | Úrslit kvöldsins

Kasami fagnar í kvöld.
Kasami fagnar í kvöld. vísir/getty
Átta fyrstu leikirnir í þriðju umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu fóru fram í kvöld.

Olympiakos gerði sér lítið fyrir og vann Ítalíumeistara Juventus, 1-0, í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Pajtim Kasami skoraði eina mark leiksins á 36. mínútu.

Grikkirnir eru með sex stig í riðlinum, rétt eins og Spánarmeistarar Atletico Madrid sem fóru illa með Malmö á heimavelli, 5-0. Koke, Mario Mandzukic, Anotoine Griezmann, Diego Godin og Alessio Gerci skoruðu mörk Madrídinga.

Juventus og Malmö eru bæði með þrjú stig og eiga því enn möguleika á að tryggja sig áfram í 16-liða úrslit keppninnar.

Búlgarska liðið Ludogorets vann sinn fyrsta sigur í B-riðli er það vann nauman sigur á Basel, 1-0, með marki Yordan Minev í uppbótartíma. Bæði lið eru með þrjú stig, rétt eins og Liverpool sem tapaði fyrir Real Madrid í kvöld. Madrídingar eru með níu stig í efsta sæti.

Bayer Leverkusen er á toppi C-riðils eftir 2-0 sigur á Zenit frá St. Pétursborg. Monaco er í öðru sæti með fimm stig en liðið gerði markalaust jafntefli við Benfica á heimavelli. Zenit er með fjögur stig og Benfica eitt.

Þá er Dortmund í sterkri stöðu í D-riðli eftir sigur á Galatasaray, 4-0. Pierre-Emerick Aubameyang skorði tvö marka Þjóðverjanna og þeir Marco Reus og Adrian Ramos eitt hvor. Dortmund er efst í riðlinum með níu stig - fullt hús stiga.

Arsenal er í öðru sæti með sex stig eftir sigur á Anderlecht, 2-1, en Belgarnir eru með eitt stig rétt eins og Galatasaray.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×