Fótbolti

Löggan grípur í taumana

Arnar Björnsson skrifar
Rússneska lögreglan hefur bannað stuðningsmönnum Manchester City að taka á leigu íbúð við Khimki-leikvanginn í Moskvu á meðan að leikur CSKA Moskvu og Manchester City fer fram.

Vegna dólgsláta stuðningsmanna CSKA síðastliðið haust refsaði Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, rússneska félaginu sem má ekki selja miða á fyrstu tvo leikina í meistaradeildinni.  

Bayern München lék í Moskvu í lok september og þá leigðu nokkrir stuðningsmenn þýska liðsins íbúð í blokk við fótboltavöllinn þar sem þeir gátu fylgst með leiknum.

Þegar dregið var í riðla í sumar keyptu stuðningsmenn City miða á leikinn en þá lá ekki fyrir að áhorfendur mættu ekki fara á leikinn.  Sextán grjótharðir City-menn fóru til Moskvu og ætluðu að sjá leikinn úr blokkinni. 

Lögreglan í Moskvu komst á snoðir um þetta og ætlar að sjá til þess að ekkert verði af áformum stuðningsmanna Manchester City.  Leikurinn hefst klukkan 16 í Moskvu og er sýndur beint á Stöð 2 sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×