Fótbolti

Sociedad vann meistarana | Alfreð kom ekkert við sögu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. Vísir/Getty
Stjóralaust lið Real Sociedad gerði sér lítið fyrir og vann Spánarmeistara Atlético Madrid á Anoeta-vellinum í Baskalandi í kvöld. Alfreð Finnbogason sat allan tímann á varamannabekk Sociedad.

Böskunum líður greinilega vel gegn Madridarliðum því í 2. umferð vann liðið Evrópumeistara Real Madrid 4-2. Einu sigrar Sociedad í deildinni hafa því komið gegn Real og Atlético Madrid.

Spænsku meistararnir komust yfir með marki Króatans Mario Mandzukic á 10. mínútu en Carlos Vela jafnaði metin aðeins fimm mínútum síðar.

Þannig var staðan í hálfleik, en á 50. mínútu dró til tíðinda þegar vinstri bakvörðurinn Guillherme Siqueira fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Alls veifaði dómari leiksins átta gulum spjöldum á leikmenn Atlético í kvöld.

Staðan var 1-1 fram á 82. mínútu þegar Imanol Agiretxe skoraði sigurmark Sociedad með skalla eftir fyrirgjöf varamannsins Zaldúa.

Eftir leikinn er Sociedad í 15. sæti með níu stig, en Atlético er í því fjórða, fjórum stigum á eftir toppliði Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×