Sigurður Ingi Þórðarson, betur þekktur sem Siggi hakkari, var í dag úrskurðaður í gæsluvarðhald til 28. nóvember. Staðfesti Hæstiréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 1. nóvember síðastliðnum.
Í greinargerð lögreglu vegna gæsluvarðhaldskröfunnar kemur fram að ríkissaksóknari hafi til meðferðar ellefu kynferðisbrotamál gegn ellefu brotaþolum þar sem Sigurður hafi stöðu sakbornings. Ætluð brot voru framin á árunum 2010 til loka árs 2013. Þá gaf lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu út ákæru á hendur Sigurði í maí síðastliðnum vegna umfangsmikilla auðgunarbrota.
Sigurður var dæmdur í átta mánaða fangelsi í febrúar síðastliðnum fyrir kynferðisbrot gegn 17 ára dreng. Tældi Sigurður drenginn til kynferðismaka. Afplánun Sigurðar lauk þann 2. nóvember og síðan hefur Sigurður setið í gæsluvarðhaldi og mun gera það til 28. nóvember í kjölfar staðfestingu Hæstaréttar.

Ákæra vegna auðgunarbrota í átján liðum
Í greinagerðinni kemur fram að nokkur hinna ætluðu kynferðisbrota sem ríkissaksóknari hafi til rannsóknar hafi verið framin eftir að Sigurður var ákærður fyrir kynferðisbrot, þ.e. þann dóm sem hann nýlega afplánaði. Það bendi til einbeitts brotavilja að mati lögreglu. Þá séu fjársvikin einnig af þeim toga að Sigurður beiti blekkingum en í þeim tilgangi að hafa fé af fólki. Ákæran um auðgunarbrotin er í átján liðum og eiga að hafa átt sér stað á árunum 2011-2014.
Það er mat geðlæknis að Sigurður sé sakhæfur en siðblindur. Hann uppfylli örugglega skilmerki fyrir persónuleikaröskun af andfélagslegri gerð. Hann þekki mun á réttu og röngu en missi sig verði hann fyrir vonbrigðum. Vandi hans felist í hömluleysi og erfiðleikum við að fresta fullnægingu þarfa. Þá iðrist hann ekki gerða sinna og geti ekki sýnt merki djúprar sektarkenndar. Kærði sé með persónuleikaveilu. Að mati lögreglustjóra bendi þessi greinargerð geðlæknisins eindregið til þess að kærði muni halda brotum sínum áfram.
Með vísan til brotaferils Sigurðar og greinagerðar geðlæknis er það mat lögreglu að yfirgnæfandi líkur séu á að Sigurður haldi brotum sínum áfram verði hann látinn laus. Á það var fallist í héraði og nú einnig í Hæstarétti.
Gæsluvarðhaldið er til klukkan 16 föstudaginn 28. nóvember. Úrskurð Hæstaréttar má lesa hér.