Fótbolti

Erfitt að mæta launakröfum Moyes

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Samkvæmt vefmiðlinum Goal.com hefur David Moyes átt í viðræðum við spænska úrvalsdeildarfélagið Real Sociedad síðustu daga. Alfreð Finnbogason er á mála hjá félaginu.

Jagobe Arrasate var rekinn frá Real Sociedad um helgina og telja forráðamenn félagsins að David Moyes myndi henta því vel. Þeir eru sagðir ánægðir með árangur hans hjá Everton þar sem hann náði góðum árangri með takmörkuð fjárráð.

Heimildamaður síðunnar telur þó að Real Sociedad eigi í vandræðum með að mæta launakröfum Skotans sem hefur verið atvinnulaus síðan honum var sagt upp hjá störfum hjá Manchester United í apríl síðastliðnum.

„Viðræður hafa gengið vel en það er enn nokkuð í land með samkomulag um launamál. La Real gæti teygt sig upp í 1,5 milljón punda [292 milljónir króna í árslaun] en ólíklegt að það yrði meira en það,“ er haft eftir heimildamanninum.

Pepe Mel, fyrrum stjóri Real Betis og WBA, er einnig orðaður við starfið sem og Þjóðverjinn Thomas Tuchel sem var áður hjá Mainz. Þá hefur Alejandro Sabella, fyrrum landsliðsþjálfari Argentínu, lýst yfir áhuga á starfinu.

Eini sigur Real Sociedad á tímabilinu til þessa kom gegn Real Madrid í annarri umferð. Liðið er í næstneðsta sæti deildarinnar með sex stig eftir tíu leiki.


Tengdar fréttir

Alfreð fær nýjan þjálfara

Alfreð Finnbogason mun fá nýjan stjóra á næstu dögum, en Jagoba Arrasate var sagt upp störfum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×