Bíó og sjónvarp

Hitti McConaughey í London: „Dauðlangaði til að segja: alright, alright, alright“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Sigríður segir Matthew hafa ljómað þegar Ísland bar á góma.
Sigríður segir Matthew hafa ljómað þegar Ísland bar á góma. Vísir/getty & úr einkasafni
„Þegar ég fór að heiman á fimmtudagsmorgun var tæplega tuttugu stiga hiti í London og haustlitirnir ótrúlega fallegir í sólinni. Ég þurfti að klípa mig í handlegginn, trúði varla eigin lukku að fá tækifæri til að taka viðtöl við stjörnur nýjustu myndar Christopher Nolan, Interstellar,” segir kvikmyndafræðingurinn Sigríður Pétursdóttir.

Sigríður hefur búið í London í tvö ár og fékk það verðuga verkefni að taka viðtal við leikara myndarinnar Interstellar, þau Matthew McConaughey, Anne Hathaway, Jessicu Chastain og Mackenzie Foy í síðustu viku. Viðtölin verða sýnd í Djöflaeyjunni á RÚV á morgun en SAM-bíóin útveguðu Sigríði viðtölin. Myndin, sem tekin var upp að hluta til á Íslandi í fyrra, verður frumsýnd þann 7. nóvember.

Daginn áður en Sigríður fékk að taka viðtöl við stjörnurnar var haldinn blaðamannafundur með aðstandendum myndarinnar.

„Blaðamannafundurinn daginn áður sannfærði mig um að þau yrðu öll góðir viðmælendur en að ná viðtali af viti við hvern og einn á aðeins fimm mínútum er ögrandi verkefni,” segir Sigríður og bætir við að þessar aðstæður minni um margt á atriði í kvikmyndinni Notting Hill þar sem leikarinn Hugh Grant þykist vera blaðamaður.

Blaðamannafundur með aðstandendum myndarinnar.
„Þeir sem hafa séð myndina Notting Hill þar sem Will þykist vera tíðindamaður blaðsins Horse & Hound, fer á milli herbergja og ræðir við hverja stjörnuna á fætur annarri, geta gert sér í hugarlund hvernig þetta er því nákvæmlega þannig fara viðtölin fram.

Maður mætir snemma á hótelið og skrifar undir allskonar pappíra, lofar að spyrja ekki um annað en myndina, biðja stjörnurnar ekki um myndir með þeim og birta efnið aðeins á þeim miðli sem þeir hafa samþykkt fyrir,” segir Sigríður og bætir við að talsverð bið hafi verið eftir viðtölunum.

„Síðan hefst löng bið en skemmtileg því það myndast oft frábær stemming þar sem sjónvarpsfólk víðs vegar að úr heiminum situr saman, fær fínar veitingar og spjallar um kvikmyndir og mismunandi aðstöðu fjölmiðla í heimalöndunum. Ég eignaðist vinkonu frá Írlandi og rússnesk stúlka sagði okkur sláandi sögur af spillingu í rússneskri kvikmyndagerð. Ég gat hins vegar sagt þeim frá því að íslensk kvikmynd hefði í fyrsta sinn fengið norrænu kvikmyndaverðlaunin og sumir mundu eftir frábærum dómi Guardian um Hross í oss.”

Sjónvarpsmaður frá Ísrael prófar Oculus Rift-hjálminn.
Loks kom að því að Sigríður tók viðtöl við leikarana.

„Svo erum við leidd milli herbergja, eitt í einu, til að taka viðtölin. Maður hefur varla tíma til að heilsa stjörnunum áður en allt er keyrt í gang. Misjafnt er hvernig þau taka á móti manni og það er óskrifuð regla að heilsa ekki með handabandi nema þau rétti fram höndina að fyrra bragði. Matthew McConaughey sat og smellti fingrum, mig dauðlangaði til að segja: “alright, alright, alright” en lét það nú ekki eftir mér. Jessica Chastain var mjög hrifin af nafninu mínu og gerði fjölda tilrauna til að reyna að bera það rétt fram en Anne Hathaway hældi hins vegar gíraffabuxunum mínum. Mackenzie Foy er stórhuga stelpa sem ætlar að verða leikstjóri í framtíðinni, handtak hennar var þétt og augnaráðið einlægt. Þau voru öll draumaviðmælendur hvert á sinn hátt,” segir Sigríður.

Interstellar var tekin af hluta til á Íslandi, nánar tiltekið á Svínafellsjökli, fyrir rúmu ári síðan með aðstoð íslenska framleiðslufyrirtækisins Sagafilm. Leikararnir báru Íslandi góða söguna.

„Matthew og Anne ljómuðu eins og sólin þegar þau töluðu um Ísland og tökurnar þar. Fannst landið einstakt og hældu tökuliði Sagafilm fyrir fagmennsku. Ég var heppin að vera frá Íslandi því Matthew var eitthvað illa fyrirkallaður og kollegar mínir töluðu um að hann hefði verið fjarrænn og aldrei farið á flug. Ég hafði hins vegar aðra sögu að segja því hann fór á flug um leið og ég minntist á Ísland,“ segir Sigríður.

Eftir viðtölin voru blaðamenn keyrðir í IMAX-kvikmyndahúsið þar sem þeir fengu að horfa á þrjár mínútur úr Interstellar með svokallaðan Oculus Rift-hjálm á höfðinu.

„Þá er maður staddur í sýndarveruleika, ég ferðaðist um í geimskipinu og það var fáránlega raunverulegt. Svona eigum við sennilega eftir að horfa á sumar kvikmyndir í framtíðinni. Upplifa þær sem ein af persónum myndarinnar.“

Sigríður hóf störf hjá RÚV fyrir rúmum þrjátíu árum. Síðustu tvö árin hefur hún til að mynda tekið viðtöl á London Film Festival og farið í heimsókn á tökustað Downton Abbey fyrir Djöflaeyjuna. Hún er afar dularfull þegar hún er spurð út í hvað er á döfinni hjá henni.

„Það getur verið að ég taki viðtal við ennþá stærri kvikmyndastjörnu í desember en það er allt á huldu ennþá.“


Tengdar fréttir

Rosalega mikið af Íslandi í Interstellar

Árni Björn Helgason hjá Saga Film er ánægður með hvernig Hollywood-myndin Interstellar kemur út á hvíta tjaldinu. Stjörnurnar myndarinnar voru allar mjög jarðbundnar og langt í frá með einhverja stæla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×