Arna Stefanía Guðmundsdóttir, ein efnilegasta frjálsíþróttakona landsins, hefur ákveðið að skipta úr ÍR yfir í FH en þetta staðfestir hún á Instagram-síðu sinni í kvöld.
Arna Stefanía glímdi við meiðsli í sumar og tókst ekki að fylgja eftir góðu ári þar á undan og hún ætlar ekki aðeins að skipta yfir í annað félag.
„Eftir erfitt sumar og meiðsli hef ég ákveðið að breyta aðeins til. Er búin að skrifa undir félagsskipti í FH eins og margir vita. Einnig ætla ég að hvíla aðeins sjöþrautina og einbeita mér frekar að 200 m, 400 m og grindarhlaupinu. Hlakka til komandi tíma," skrifaði Arna Stefanía á Instagram-síðu sína.
Arna Stefanía Guðmundsdóttir er 19 ára gömul og aðeins þrjár íslenskar konur hafa náð betri árangri en hún í sjöþraut. Arna Stefanía náði mest í 5383 stig á móti á Ítalíu sumarið 2013.
