Edda Garðarsdóttir, einn meðlimur hundrað landsleikjaklúbbsins, hefur verið ráðin aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna í KR sem og styrktarþjálfari bæði meistaraflokks og yngri flokka félagsins. Þetta kemur fram á heimasíðu KR-inga.
Edda er því komin heim í KR en hún hefur undanfarin tvö ár verið hjá Val, fyrst sem leikmaður í hálft tímabil og svo sem aðstoðarþjálfari liðsins.
Edda kom þrettán ára gömul í KR og er áttundi leikjahæsti leikmaður KR frá upphafi með 218 leiki. Hún lék síðast með KR í bikarúrslitaleiknum gegn Val árið 2008 en fór í framhaldinu í atvinnumennsku.
„KR er í miklu uppbyggingarstarfi þessi misserin og er ráðning Eddu liður í að auka gæði kvennaboltans í KR. KR ingar bjóða Eddu velkomna aftur heim og binda miklar vonir við að reynsla hennar og þekking nýtist við að koma KR aftur í fremstu röð í kvennaboltanum," segir í frétt um Eddu á heimasíðu KR.
Kvennalið KR er aftur komið upp í Pepsi-deildina eftir tveggja ára fjarveru. Björgvin Karl Gunnarsson þjálfa liðið, en auk Eddu þá er annar reynslubolti á bekknum því Guðlaug Jónsdóttir er liðstjóri liðsins.
