Fótbolti

Busquets bjargaði Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar sækir að marki Valencia í leiknum.
Neymar sækir að marki Valencia í leiknum. vísir/getty
Barcelona beið fram á síðustu með að skora gegn Valencia á Mestalla, en Sergio Busquets skoraði eina mark leiksins á 93. mínútu.

Talsverður hiti var í leiknum og dómarinn David Fernández hafði í nógu að snúast. Eftir hálftíma leik voru þrír af fjórum í varnarlínu Barcelona komnir með gult spjald.

Luis Suárez komst næst því að skora í fyrri hálfleik, en Diego Alves varði skot hans úr dauðafæri.

Suárez gerði sig aftur líklegan á 58. mínútu, en skot hans af stuttu færi fór framhjá.

Úrúgvæinn kom boltanum loks í netið á 69. mínútu, en markið var dæmt af vegna rangstöðu sem var rangur dómur.

Tveimur mínútum síðar komst Alsíringurinn Sofiane Feghouli einn í gegnum vörn Barcelona en Bravo varði skot hans.

Skömmu síðar þurfti Bravo aftur að taka á honum stóra sínum þegar hann varði skot Álvaros Negrado.

Barcelona jók pressuna á lokamínútum og sú pressa bar árangur á þriðju mínútu í uppbótartíma þegar Busquets þrumaði boltanum í netið af stuttu færi eftir að Alves hafði varið skalla Neymars.

Með sigrinum endurheimti Barcelona annað sætið í spænsku deildinni, en liðið er nú tveimur stigum á eftir toppliði Real Madrid. Valencia situr hins vegar í 5. sæti með 24 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×