Fótbolti

Hvíslar Billy McKinlay „Finnbogason“ í eyra David Moyes?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Vísir/Getty
David Moyes nýr þjálfari Alfreðs Finnbogasonar hjá spænska úrvalsdeildarfélaginu er búinn að finna sér aðstoðarmann en það er Billy McKinlay, fyrrum knattspyrnustjóri Watford.

Billy McKinlay er 45 ára gamall en hann entist bara átta daga eftir að hafa verið ráðinn knattspyrnustjóri Watford í september.

McKinlay er fyrrum landsliðsmaður Skotlands og var aðstoðarþjálfari norður-írska landsliðsins frá 2012 til 2014.

Real Sociedad gerði markalaust jafntefli við Deportivo í fyrsta leik David Moyes um síðustu helgi en þá fékk Alfreð Finnbogason bara að spila síðustu þrjár mínúturnar.

Næsti leikur Real Sociedad er á móti Elche í kvöld og þá verður fróðlegt að sjá hvort Billy McKinlay ráðleggi Moyes að taka Alfreð inn í byrjunarliðið.

Alfreð hefur ekki verið í byrjunarliðinu í undanförnum þremur leikjum eða síðan að hann byrjaði í 1-1 jafntefli við Córdoba í lok október.

Alfreð á enn eftir að skora fyrir Real Sociedad en hann hefur spilað 9 leiki og í 363 mínútur í búningi spænska liðsins í öllum keppnum án þess að finna netmöskvanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×