Manuel Pellegrini, stjóri Manchester City, gerði lítið úr þeim sögusögnum sem hafa gengið um að Lionel Messi sé mögulega á leið frá Barcelona.
Messi hefur verið á mála hjá Barcelona síðan hann var þrettán ára gamall en sagði engu að síður í viðtali við fjölmiðla í Argentínu nýlega að mál hans hjá Barcelona væru flókin.
Sennilega hafa fá félög í heiminum efni á Lionel Messi en Manchester City væri líklega í þeim hóp. Messi æfði þar að auki á æfingasvæði félagsins fyrir landsleik Argentínu gegn Portúgal á dögunum.
„Þetta eru bara sögusagnir,“ sagði Manuel Pellegrini, stjóri City, en Messi varð um helgina markahæsti leikmaður í sögu spænsku úrvalsdeildarinnar með 253 mörk er hann skoraði þrennu í sigri á Sevilla.
„Afrek hans með Barcelona er einstakt og fáir leikmenn sem geta staðið jafnfætis honum. Metið endurspeglar mikilvægi hans fyrir Barcelona.“
