Fótbolti

Dómstóll ógildir þjálfarabann Zidane

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zinedine Zidane var aðstoðarmaður Carlo Ancelotti í fyrra.
Zinedine Zidane var aðstoðarmaður Carlo Ancelotti í fyrra. Vísir/Getty
Zinedine Zidane, einn fremsti knattspyrnumaður sögunnar, er ekki lengur í banni eftir að dómstóll á Spáni dæmdi þriggja mánaða þjálfarabann Frakkans ógilt. Zinedine Zidane má því þjálfa varalið Real Madrid á þessu tímabili.

Zinedine Zidane var í október dæmdur í þriggja mánaða bann þar sem að hann var að mati spænska knattspyrnusambandsins ekki með nauðsynleg leyfi til þess að þjálfa lið í spænsku C-deildinni.

Zidane hefur fengið að þjálfa Castilla-lið Real Madrid þrátt fyrir bannið en sami dómstóll gaf honum leyfi til þess á meðan áfrýjun Zidane var í kerfinu.

Zidane heldur því fram að hann hefði klárað þjálfaramenntun sína í Frakklandi en spænska knattspyrnusambandið var ekki sammála því. Dómstóll tók hinsvegar upp málstað Zidane sem getur nú unnið á ný með framtíðarleikmenn Real Madrid.

Zinedine Zidane var á sínum tíma besti knattspyrnumaður heims og hann var einnig um tíma sá dýrasti þegar Real Madrid keypti hann frá Juventus.

Zidane varð heimsmeistari með Frökkum 1998 og var rekinn útaf í úrslitaleiknum á HM 2006 sem jafnframt var hans síðasti leikur á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×