Brynjar Leó Kristinsson, landsliðsmaður í skíðagöngu, endaði í 135. sæti í 10 km göngu í Bruksvallarna í Svíþjóð í dag. Þetta kemur fram á heimasíðu SKÍ.
Brynjar fékk 156.34 FIS punkta, en það er einungis 9 punktum frá hans punktastöðu. 185 keppendur kláruðu mótið en 192 hófu keppni.
Brynjar Leó sagðist í samtali við heimasíðu SKÍ, vera nokkuð sáttur með gönguna og er bara brattur fyrir morgundaginn, en þá keppir hann í 15 km göngu á sama stað.
Lítið er um snjó í Evrópu þessa dagana og því var þetta gríðarlega fjölmennt og sterkt mót. Til marks um styrkleika mótsins þá var sigurvegari mótsins, Johan Olsson, gull- og silfurverðlaunahafi frá Ólympíuleikunum í Sochi 2014.

