Ísing sló út nokkrum loftlínum Orkuveitunnar austast á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Straumlaust varð í Mosfellsdal og Úlfarsárdal að hluta og Skálafellslína sló út. Viðgerð er nú lokið og eru allir nú komnir með rafmagn.
Í frétt Orkuveitu Reykjavíkur segir að síðla nætur hafi síðan orðið bilun í háspennustreng á milli dreifistöðva Orkuveitunnar á Freyjugötu og Bókhlöðustíg. „Rafmagnslaust varð þá í Þingholtunum um tíma. Allir eiga að vera komnir rafmagn að nýju en svo virðist sem tjón hafi orðið á Bláfjallalínu, sem flytur rafmagn til skíðasvæðisins, jafnvel að stæður í henni hafi brotnað. Það verður kannað nánar nú með morgninum og gert við.“
