Sundfólkið sigursæla; Jón Margeir Sverrisson, Fjölni, og Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, eru íþróttamenn ársins í röðum fatlaðra árið 2014.
Kjörið var kunngjört við hátíðlega athöfn á Hótel Sögu í dag, en bæði Jón Margeir og Thelma náðu ótrúlegum góðum árangri á árinu.
Thelma ber höfuð og herðar yfir keppendur í sínum flokki hér heima, en hún setti hvorki fleiri né færri en 43 Íslandsmet á árinu.
Þá fékk hún bronsverðlaun í 400 metra skriðsundi á EM í Eindhoven í ágúst. Þetta er annað árið í röð sem Thelma er kjörin íþróttakona fatlaðra.
Jón Margeir var einnig í metaham, en hann setti tíu Íslandsmet í 25 metra laug á árinu og sjö slík í 50 metra laug. Við það bætti hann svo tveimur heimsmetum og fjórum Evrópumetum.
Jón Margeir, sem fagnar nú titlinum íþróttamaður ársins í röðum fatlaðra í fjórða sinn á fimm árum, varð Evrópumeistari í 200 metra skriðsundi á EM í Eindhoven í ágúst.
Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður ÍF, sagði við verðlaunaathöfnina í dag að gríðarlega erfitt hefði verið að gera upp á milli Jóns Margeirs og spjótkastarans Helga Sveinssonar. Helgi varð einnig Evrópumeistari í sínum flokki í sumar.
