Fótbolti

Alfreð getur tekið enn eitt metið af Pétri Péturssyni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason spilar í spænsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Alfreð Finnbogason spilar í spænsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Vísir/Getty
Alfreð Finnbogason samdi í gær við spænska úrvalsdeildarliðið Real Sociedad og verður þar með fimmti Íslendingurinn til þess að spila í efstu deild á Spáni.

Landsliðsframherjinn stóðst læknisskoðun í gær og skrifaði í framhaldinu undir fjögurra ára saming til ársins 2018. Real Sociedad greiðir Heerenveen 7,5 milljónir evra fyrir Alfreð samkvæmt fréttum frá Spáni en 2,5 milljónir evra bætast svo við það í gegnum árangurstengdar greiðslur.

Alfreð getur þar með haldið áfram að „hreinsa“ upp met gamla þjálfara síns, Péturs Péturssonar. Alfreð sló nokkur met Péturs á tveimur frábærum árum sínum með Heerenveen í hollensku deildinni. Þar á meðal bætti hann í tvígang markamet Íslendings á einu tímabili í evrópskri A-deild.

Pétur Pétursson var fyrsti Íslendingurinn til að spila í A-deildinni á Spáni fyrir 29 árum og skoraði þá 5 mörk í 27 leikjum með Hércules frá Alicante. Það markamet hefur staðið síðan en Eiður Smári Guðjohnsen jafnaði það með því að skora 5 mörk á fyrsta tímabili sínu með Barcelona-liðinu veturinn 2006 til 2007.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir metin sem Alfreð hefur tekið af Pétri undanfarin tvö ár og hvaða met eru hugsanlega í augsýn þegar hann verður fyrsti Íslendingurinn til þess að spila knattspyrnu með Baskafélagi.

Alfreð Finnbogason og markametin:

Flest mörk  Íslendings á einu ári

Var: 32 mörk - Pétur Pétursson 1979

Nýtt met: 34 mörk - Alfreð Finnbogason 2012

Flest mörk Íslendings á tímabili í Evrópu

Var: 23 - Pétur Pétursson, Feyenoord 1979-80

Nýtt met: 24 - Alfreð Finnbogason Heerenveen 2012-13

Nýtt met: 29 - Alfreð Finnbogason Heerenveen 2013-14

Flest mörk Íslendings í hollensku úrvalsdeildinni

Var: 49 mörk - Pétur Pétursson, Feyenoord

Nýtt met: 53 mörk - Alfreð Finnbogason, Heerenveen

Flest mörk á tímabili í spænsku úrvalsdeildinni:

Metið: 5 mörk - Pétur Pétursson, Hércules 1985-86

Jafnað: 5 mörk - Eiður Smári Guðjohnsen, Barcelona 2006-07

Flest mörk Íslendings í spænsku úrvalsdeildinni:

Metið: 10 mörk - Eiður Smári Guðjohnsen, Barcelona


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×