Nýr seðlabankastjóri? Guðmundur Andri Thorsson skrifar 7. júlí 2014 00:00 Það var misráðið að höfða mál á hendur ríkinu til þess að knýja það til að standa við þau launakjör sem tilgreind voru í ráðningarsamningi Más Guðmundssonar seðlabankastjóra við ríkið en var svo einhliða breytt eftir á af hálfu ríkisins. Þetta sýndi skeytingarleysi um almenningsálitið, skilningsleysi á því andrúmslofti sem ríkti í samfélaginu eftir Hrun þegar sæmd var loksins ekki mæld í launum eingöngu heldur framgöngu. Málareksturinn sýndi skort á pólitísku innsæi: hann var til þess fallinn að grafa undan tiltrú Más hjá almenningi sem þráði að fá loksins að sjá fólk í trúnaðarstöðum sem liti á það sem hlutverk sitt að þjóna samfélaginu. Eins og þrettánhundruð fréttir Morgunblaðsins greina frá, fjölmargir leiðarar og Reykjavíkurbréf, gætti formaður bankaráðs þess ekki að bera undir það þá ákvörðun að bankinn skyldi kosta málshöfðunina, sem vitnar um fyrirhrunslegt hirðuleysi um vandað vinnulag en umfram allt: formaður bankaráðsins grautaði saman hagsmunum bankans og einkahagsmunum Más. Og loks mátti Már vita að þessi málarekstur myndi vera til þess fallinn að færa öflugum og heiftúðugum óvildarmanni hans vopn upp í hendurnar; manni sem vakinn og sofinn er staðráðinn í því að ná fram fullum hefndum fyrir þá vansæmd að vera látinn víkja úr stól Seðlabankastjóra. Eftir minn dag kemur enginn. Hvað var Már að hugsa? Um peninga? Hann hafði reyndar lækkað töluvert í launum við vistaskiptin frá Sviss en varla var hann á slíku flæðiskeri staddur að hér hafi peningavon ráðið – þá hefði hann væntanlega haldið starfi sínu í Sviss … Hvað gekk manninum til?Apinn á hæstu greininni Kannski var hann að hlusta á einhvern lögfræðing. Og kannski hugsaði hann svona: Það er sanngirnismál að staðið sé við gerða samninga, og ekki bara það, heldur er það nauðsynleg forsenda þess að umbætur verði á stjórnsýslu hér á landi, sem of lengi hefur verið laus í reipunum og háð geðþótta. Sérstaklega er þetta mikilvægt í samskiptum Seðlabankans og ríkisvaldsins, því að bankinn og íslenskt efnahagslíf á allt undir því að hann sé sjálfstæður í ákvörðunum sínum og óháður stundlegum hagsmunum og duttlungum stjórnmálamanna á atkvæðaveiðum – ekki síst í landi þar sem efnahagskerfið hrundi vegna taumlausrar fyrirgreiðslu einkarekinna banka við frændur og vini. Mikilvægt er að ráðherrar ríkisstjórnar geti ekki skapað þrýsting á Seðlabankastjóra til að fara eftir stefnu sinni hverju sinni, og kæmist ríkisstjórnin upp með að lækka einhliða laun Seðlabankastjórans skapar slíkt hættulegt fordæmi sem aldrei er að vita hvernig endar. Kannski hefur hann hugsað eitthvað á þessa leið. Hann hefur verið að passa upp á stöðu sína og bankans – hver ráði hverju yfir hverjum; hver sé apinn á hæstu greininni: Alveg síðan Jóhannes Nordal lét af störfum hefur enginn maður gegnt starfi Seðlabankastjóra sem almennt hefur verið talinn valda starfinu. Jóhannes var nánast í guða tölu á sinni tíð, og þegar hann tjáði sig „ex cathedra“ sátu stjórnmálamenn niðurlútir og meðtóku boðskapinn. Og hugsuðu sitt: „Þetta er eitthvað fyrir mig.“ Frá því að Jóhannes settist í helgan stein hafa fyrrum stjórnmálamenn viljað baða sig í þeim ljóma sem Jóhannes brá á starfið – og hefur hann dofnað í réttu hlutfalli – og hafa eitthvað að sýsla við á sínum efri árum, með ókunna fagmenn sér til hliðar, til að sjá um hin eiginlegu bankastörf. Síðasti stjórnmálamaðurinn sem hlammaði sér í stólinn með þessum hætti leiddi bankann – og íslenskt efnahagslíf – fram af bjargbrúninni, svo að sjálfur Seðlabanki Íslands varð gjaldþrota.Andstæðingur velferðarkerfisins Már er fyrsti faglegi aðalbankastjóri Seðlabankans eftir Jóhannes Nordal. Í tíð hans hefur tekist með erlendri hjálp að endurreisa bankann og orðspor hans, og þá bregður svo við að talað er um að setja til starfans einn nánasta ráðgjafa og vildarmann Davíðs Oddssonar, Ragnar Árnason, sem kunnur er sem einn helsti talsmaður kvótakerfisins og vakti síðast athygli fyrir hugmyndir sínar um skaðsemi opinberra heilbrigðistrygginga og raunar virðist hann andvígur hvers kyns niðurgreiðslu hins opinbera á heilbrigðisþjónustu, enda sé markaðurinn einn hinn eðlilegi vettvangur fyrir þessa starfsemi eins og alla aðra. Það að vera veikur er eins og hver önnur vara. Einstrengingslegar skoðanir Ragnars sem hann hefur sett fram í ræðu og riti eru ekki til þess fallnar að skapa um Seðlabankann það andrúmsloft sem hann þarf sárlega á að halda nú þegar fyrir dyrum stendur stórfelldasta útdeiling eigna í Íslandssögunni og viðkvæmir samningar við þrotabú gömlu bankanna þar sem allir lærðustu fjárplógsmenn í vestrænum bankaheimi munu sameinast gegn íslenskum stjórnvöldum. Ekki er gott að yfir útdeilingu gæðanna vaki maður sem hefur þá lífshugsjón að auður eigi að safnast á sem fæstar hendur og að markaðurinn eigi að ráða lífi og heilbrigði fólks. Og að sömu menn eigi að ráða för við útdeilingu þeirra gæða og færðu vildarmönnum sínum bankana á sínum tíma, með heimsfrægum afleiðingum, er beinlínis hrollvekjandi tilhugsun. Má Guðmundssyni – og bankaráði Seðlabankans á þeim tíma – varð á í messunni þegar hann hóf málarekstur sinn út af launum sínum. Einhverjir telja þau mál sambærileg við framgöngu Davíðs í sama embætti – og leiddi til allsherjar Hruns sem við erum enn að súpa seyðið af – það er að sjálfsögðu fjarri lagi. Og almennt talað þarf stórkostleg embættisglöp, á borð við þau, til að skipt sé um í slíku starfi. Nýrri ríkisstjórn á ekki að fylgja nýr seðlabankastjóri hverju sinni, allra síst öfgamaður sem starfar eftir hugsjónum sem flestum Íslendingum eru fjarlægar og ógeðfelldar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun Rétt tímasetning skiptir öllu máli Ole Anton Bieltvedt Skoðun Sjálfræðissvipting þjóðar Ægir Örn Arnarson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Emma Lazarus og Frelsisstyttan Atli Harðarson Skoðun Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun
Það var misráðið að höfða mál á hendur ríkinu til þess að knýja það til að standa við þau launakjör sem tilgreind voru í ráðningarsamningi Más Guðmundssonar seðlabankastjóra við ríkið en var svo einhliða breytt eftir á af hálfu ríkisins. Þetta sýndi skeytingarleysi um almenningsálitið, skilningsleysi á því andrúmslofti sem ríkti í samfélaginu eftir Hrun þegar sæmd var loksins ekki mæld í launum eingöngu heldur framgöngu. Málareksturinn sýndi skort á pólitísku innsæi: hann var til þess fallinn að grafa undan tiltrú Más hjá almenningi sem þráði að fá loksins að sjá fólk í trúnaðarstöðum sem liti á það sem hlutverk sitt að þjóna samfélaginu. Eins og þrettánhundruð fréttir Morgunblaðsins greina frá, fjölmargir leiðarar og Reykjavíkurbréf, gætti formaður bankaráðs þess ekki að bera undir það þá ákvörðun að bankinn skyldi kosta málshöfðunina, sem vitnar um fyrirhrunslegt hirðuleysi um vandað vinnulag en umfram allt: formaður bankaráðsins grautaði saman hagsmunum bankans og einkahagsmunum Más. Og loks mátti Már vita að þessi málarekstur myndi vera til þess fallinn að færa öflugum og heiftúðugum óvildarmanni hans vopn upp í hendurnar; manni sem vakinn og sofinn er staðráðinn í því að ná fram fullum hefndum fyrir þá vansæmd að vera látinn víkja úr stól Seðlabankastjóra. Eftir minn dag kemur enginn. Hvað var Már að hugsa? Um peninga? Hann hafði reyndar lækkað töluvert í launum við vistaskiptin frá Sviss en varla var hann á slíku flæðiskeri staddur að hér hafi peningavon ráðið – þá hefði hann væntanlega haldið starfi sínu í Sviss … Hvað gekk manninum til?Apinn á hæstu greininni Kannski var hann að hlusta á einhvern lögfræðing. Og kannski hugsaði hann svona: Það er sanngirnismál að staðið sé við gerða samninga, og ekki bara það, heldur er það nauðsynleg forsenda þess að umbætur verði á stjórnsýslu hér á landi, sem of lengi hefur verið laus í reipunum og háð geðþótta. Sérstaklega er þetta mikilvægt í samskiptum Seðlabankans og ríkisvaldsins, því að bankinn og íslenskt efnahagslíf á allt undir því að hann sé sjálfstæður í ákvörðunum sínum og óháður stundlegum hagsmunum og duttlungum stjórnmálamanna á atkvæðaveiðum – ekki síst í landi þar sem efnahagskerfið hrundi vegna taumlausrar fyrirgreiðslu einkarekinna banka við frændur og vini. Mikilvægt er að ráðherrar ríkisstjórnar geti ekki skapað þrýsting á Seðlabankastjóra til að fara eftir stefnu sinni hverju sinni, og kæmist ríkisstjórnin upp með að lækka einhliða laun Seðlabankastjórans skapar slíkt hættulegt fordæmi sem aldrei er að vita hvernig endar. Kannski hefur hann hugsað eitthvað á þessa leið. Hann hefur verið að passa upp á stöðu sína og bankans – hver ráði hverju yfir hverjum; hver sé apinn á hæstu greininni: Alveg síðan Jóhannes Nordal lét af störfum hefur enginn maður gegnt starfi Seðlabankastjóra sem almennt hefur verið talinn valda starfinu. Jóhannes var nánast í guða tölu á sinni tíð, og þegar hann tjáði sig „ex cathedra“ sátu stjórnmálamenn niðurlútir og meðtóku boðskapinn. Og hugsuðu sitt: „Þetta er eitthvað fyrir mig.“ Frá því að Jóhannes settist í helgan stein hafa fyrrum stjórnmálamenn viljað baða sig í þeim ljóma sem Jóhannes brá á starfið – og hefur hann dofnað í réttu hlutfalli – og hafa eitthvað að sýsla við á sínum efri árum, með ókunna fagmenn sér til hliðar, til að sjá um hin eiginlegu bankastörf. Síðasti stjórnmálamaðurinn sem hlammaði sér í stólinn með þessum hætti leiddi bankann – og íslenskt efnahagslíf – fram af bjargbrúninni, svo að sjálfur Seðlabanki Íslands varð gjaldþrota.Andstæðingur velferðarkerfisins Már er fyrsti faglegi aðalbankastjóri Seðlabankans eftir Jóhannes Nordal. Í tíð hans hefur tekist með erlendri hjálp að endurreisa bankann og orðspor hans, og þá bregður svo við að talað er um að setja til starfans einn nánasta ráðgjafa og vildarmann Davíðs Oddssonar, Ragnar Árnason, sem kunnur er sem einn helsti talsmaður kvótakerfisins og vakti síðast athygli fyrir hugmyndir sínar um skaðsemi opinberra heilbrigðistrygginga og raunar virðist hann andvígur hvers kyns niðurgreiðslu hins opinbera á heilbrigðisþjónustu, enda sé markaðurinn einn hinn eðlilegi vettvangur fyrir þessa starfsemi eins og alla aðra. Það að vera veikur er eins og hver önnur vara. Einstrengingslegar skoðanir Ragnars sem hann hefur sett fram í ræðu og riti eru ekki til þess fallnar að skapa um Seðlabankann það andrúmsloft sem hann þarf sárlega á að halda nú þegar fyrir dyrum stendur stórfelldasta útdeiling eigna í Íslandssögunni og viðkvæmir samningar við þrotabú gömlu bankanna þar sem allir lærðustu fjárplógsmenn í vestrænum bankaheimi munu sameinast gegn íslenskum stjórnvöldum. Ekki er gott að yfir útdeilingu gæðanna vaki maður sem hefur þá lífshugsjón að auður eigi að safnast á sem fæstar hendur og að markaðurinn eigi að ráða lífi og heilbrigði fólks. Og að sömu menn eigi að ráða för við útdeilingu þeirra gæða og færðu vildarmönnum sínum bankana á sínum tíma, með heimsfrægum afleiðingum, er beinlínis hrollvekjandi tilhugsun. Má Guðmundssyni – og bankaráði Seðlabankans á þeim tíma – varð á í messunni þegar hann hóf málarekstur sinn út af launum sínum. Einhverjir telja þau mál sambærileg við framgöngu Davíðs í sama embætti – og leiddi til allsherjar Hruns sem við erum enn að súpa seyðið af – það er að sjálfsögðu fjarri lagi. Og almennt talað þarf stórkostleg embættisglöp, á borð við þau, til að skipt sé um í slíku starfi. Nýrri ríkisstjórn á ekki að fylgja nýr seðlabankastjóri hverju sinni, allra síst öfgamaður sem starfar eftir hugsjónum sem flestum Íslendingum eru fjarlægar og ógeðfelldar.
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun