Körfubolti Íslandsmeistarar Snæfells í Dominos-deild kvenna í körfubolta mæta til leiks án eins síns allra besta leikmanns næsta vetur.
Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir er að flytja til Danmerkur og verður ekki með Hólmurum á komandi leiktíð. Þetta kom fram á karfan.is í gær.
Guðrún Gróa spilaði mjög vel á síðustu leiktíð og sérstaklega í úrslitakeppninni, en hún skoraði 10,4 stig, tók 7,3 fráköst og gaf 2,6 stoðsendingar að meðaltali í leik. Þá má ekki gleyma að Gróa er einn allra besti varnarmaður deildarinnar.
Hildur Kjartansdóttir, miðherjinn sterki, verður heldur ekki með Snæfelli á næstu leiktíð því hún er á leið til Bandaríkjanna í nám. Bæði Gróa og Hildur voru í úrvalsliði Dominos-deildarinnar á síðustu leiktíð.
