Þótt Agatha Christie hafi legið í gröf sinni í 38 ár kom á dögunum út ný skáldsaga með einni frægustu persónu hennar, Hercule Poirot, í aðalhlutverki. Það var rithöfundurinn Sophie Hannah sem réðst í það stórvirki að skrifa sögu um þennan fræga einkaspæjara.
Bókin nefnist The Monogram Murders og þar aðstoðar Poirot lögreglumann hjá Scotland Yard, Edward Catchpool, við lausn á flókinni morðgátu.
Hannah hefur látið hafa eftir sér að hugmyndin hafi kviknað við lestur bókar Anthonys Horowitz um Sherlock Holmes, The House of Silk. „Það er ekta Sherlock-saga og mig langaði að ná fram sömu áhrifum,“ sagði hún í viðtali við The Telegraph um helgina.
Bókin er fáanleg sem rafbók á amazon.com ef æstir aðdáendur geta ekki beðið.
Ný bók um Hercule Poirot
