Innlent

Kennitöluflakk er þjóðaríþrótt íslendinga

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Þingmenn ræddu kennitöluflakk á Alþingi í gær.
Þingmenn ræddu kennitöluflakk á Alþingi í gær. Fréttablaðið/Stefán
„Kennitöluflakk hefur verið þjóðaríþrótt íslendinga í langan tíma, að stofna fyrirtæki, taka út úr þeim eignir, setja í þrot og skilja eftir sviðna jörð,“ sagði Karl Garðarsson, Framsóknarflokki, í sérstakri umræðu um kennitöluflakk á Alþingi.

Unnur Brá Konráðsdóttir var málshefjandi. Hún sagði að kennitöluflakk kostaði lánveitendur, ríkissjóð og skattgreiðendur háar fjárhæðir á hverju ári og spurði hún Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hvernig miðaði að kortleggja vandann og til hvaða aðgerða hafi verið gripið.

Ráðherra svaraði og sagði að það sem gerði málið snúið væri að það væri ekkert til sem héti kennitöluflakk samkvæmt lögum.

„Það er ekki glæpur að verða gjaldþrota en það er saknæmt að misnota það úrræði, sem er það sem við viljum koma í veg fyrir,“ sagði Ragnheiður Elín.

Jafnframt greindi ráðherra frá því að starfshópur væri að reyna að kortleggja vandann. Vandi hans væri að afla upplýsinga, þær lægju ekki á lausu.

Ráðherra spurði hvort þingmenn vildu setja í lög ákvæði sem kvæðu á um tímabundið atvinnurekstrarbann í einhvern tíma fyrir þá sem hafa orðið gjaldþrota. Önnur leið væri að hækka lágmarkshlutafé hlutafélaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×