„Ég fullyrði að það eru ekki margir Íslendingar sem hafa spilað þar sem við erum að fara,“ segir Ragnar Ólafsson úr Árstíðum.
Hljómsveitin er á leiðinni í sitt lengsta tónleikaferðalag til þessa, eða til Síberíu í Rússlandi. „Við verðum austan Úralfjallgarðsins, 4.000 kílómetrum austan við Moskvu, og spilum í risa tónleikahöllum í gömlum gúlag-borgum sem eru með landamæri að Kasakstan, Kína og Mongólíu,“ segir Ragnar. „Þarna fellur hitastigið niður í 50 gráðu frost á veturna. Þetta verður kalt og við verðum að taka hlý föt með okkur.“
Hljómsveitin verður í tvær vikur í Rússlandi og spilar þar með tveimur mismunandi sinfóníuhljómsveitum. Fernir tónleikar verða í Síberíu og svo nokkrir til viðbótar í Moskvu og Sankti Pétursborg, þar á meðal í íslenska sendiráðinu í höfuðborginni. Þetta verður þriðja tónleikaferð Árstíða um Rússland.
„Orðspor okkar hefur breiðst út í Rússlandi og það var óskað eftir því að fá okkur þangað,“ segir Ragnar, sem flýgur ásamt félögum sínum til Rússlands daginn eftir að þeir spila á Airwaves-hátíðinni 6. nóvember. Sveitin spilar þó fyrst á Kexi Hosteli í kvöld kl. 21.
Beint frá Airwaves til Síberíu
