Lífið

Býðst að bóka leikara til að þykjast vera maki

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Einn leikaranna sem er á lista segist vera tilbúinn að smella kossi á manneskjuna sem bókar hann í gigg ef nauðsyn krefur.
Einn leikaranna sem er á lista segist vera tilbúinn að smella kossi á manneskjuna sem bókar hann í gigg ef nauðsyn krefur. Getty

Hópur danskra leikara hefur skráð sig á lista sem ætlað er að gera öðrum kleift að bóka leikara í það verkefni að þykjast vera kærasti eða kærasta þeirra. Hugmyndin er að fólk geti bókað leikara í tímabundin verkefni, til dæmis í fjölskylduboð og annað, til að létta fólki lífið sem er orðið þreytt á að svara spurningum um hvers vegna það er einhleypt.

TV2 Kosmopol fjallar um þennan nýja möguleika í dag þar sem rætt er við Kim nokkurn Vedel, sem nú er hægt að leigja út sem plat-kærastann sinn. Hann starfar alla jafna við Konunglega leikhúsið sem aukaleikari og sem öryggisvörður á flugvellinum í Kaupmannahöfn. Hann virðist hafa getað bætt við sig verkefnum þar sem hann er nú einn þeirra leikara sem bjóða fram krafta sína í þetta óhefðbundna verkefni.

Bæði skemmtilegt og skapi störf

Þegar hafa yfir fjörutíu leikarar skráð sig á lista sem þeir lýsa sem skemmtilegu og einstöku tækifæri að því er fram kemur í umfjölluninni. Verkefnið er hugarfóstur Tommy Duus, en hann hefur á undanförnum árum unnið við verkefni tengd „leikurum í raunveruleikanum.“

„Fyrir utan að þetta er drulluskemmtilegt, þá er þetta líka leið til að skapa fleiri störf fyrir leikara sem ég vinn fyrir,“ segir Tommy við TV 2 Kosmopol. Verkefnið virðist þó fara hægt af stað, en þótt einhverjir hafi sýnt áhuga þá hafi enn sem komið er enginn bókað leikara til að bregða sér í hlutverk maka síðan verkefninu var hleypt af stokkunum fyrir jól.

Tilbúinn í kossa ef á reynir

Kim tekur undir að verkefnið sé skemmtilegt. „Þetta mun algjörlega fara yfir öll mörk, en þetta verður pottþétt líka mjög skemmtilegt,“ segir Kim við TV2 Kosmopol. Hugmyndina um að fá einhvern annan til þess að þykjast vera maki sinn þekkir fólk eflaust helst úr rómantískum gamanmyndum, en nú gefst tækifæri til að láta á þetta reyna í raun og veru.

Kim er 58 ára og hefur starfað við leiklist í um tuttugu ár, en þetta er í fyrsta sinn sem hann tekur að sér leikið hlutverk í raunverulegu lífi fólks. „Ég er hrifinn af hugmyndinni um að skora á sjálfan mig og matarborðið sem ég á að sitja við. Hvort sem ég á að leika allt of gamlan kærasta ungrar konu eða háværan kærasta í brúðkaupi, það verður fáránlega gaman,“ segir Kim.

Ef á reynir segist hann vera tilbúinn að smella kossi á manneskjuna sem bókar hann í gigg ef nauðsyn krefur. Hann vonist þó til að verða afhjúpaður fyrir rest til að geta séð viðbrögð fjölskyldunnar þegar þau heyra að hann sé ekki raunverulegur kærasti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.