Jól

Rotaður í fjósi á jólanótt!

Í endurminningunni finnst mér alltaf að hátíðleiki og ljómi hafi verið yfir jólahaldinu heima í Svarfaðardal. Fjölskyldan kom saman og verkefni okkar systkinanna þegar komið var heim í jólafrí í skólum var að skreyta hús, bæði úti og inni - sem og auðvitað að taka þátt í útiverkunum. Og eins og gengur var svo gripið í spil - spilaður brús - en raunar fékk ég litla æfingu í þeirri list þar sem foreldrar mínir sáu til þess að framleiða í löglegan fjölda brússpilara áður en röðin kom að mér. Mitt hlutverk fólst í að fylgjast með bókhaldinu í spilinu og opna síðan allar dyr og flóttaleiðir í húsinu þegar útlit var fyrir að klóraðir yrðu hausar!

Ein jólin skera sig þó alveg sérstaklega úr í minningunni. Vinnsluminni mitt segir að þetta hafi verið jólin 1980 og ég því 16 ára gamall. Að vanda þurfti að sinna fjósverkum á aðfangadagskvöld og kom í hlut okkar bræðra, mín og Óskars Þórs, að sinna þeim.

Þar sem lítið fer fyrir heita vatninu í krönum til sveita þurfti að hafa gott skipulag á böðunum heimilisfólks þannig að allir næðu að fá sitt heita jólabað áður en sest yrði að borðum. Það þurfti nefnilega að gæta þess að olíufíringin í húsinu hefði undan að framleiða heitt baðvatnið. Því fengu aðrir á heimilinu skipun um að ljúka sínum böðum í tíma þannig að heitt vatn yrði nægjanlegt þegar sveittir fjósamenn kæmu úr verkum.

Fjóstíminn var harla venjulegur, framan af að minnsta kosti. Ég minnist þess þó að okkur bræðrum þótti tilhlýðilegt að gera vel við kýr og kindur á aðfangadagskvöld og gáfum gjarnan ríflega hey og kjarnfóður, svona til að skepnurnar fengju líka notið hátíðarinnar. Pabbi tók auðvitað eftir því að við fórum ekki alltaf nákvæmlega eftir nyt kúnna við fóðurgjöfina á jólanótt en skipti sér ekkert af því.

Það að gera vel við skepnurnar í fóðurgjöf finnst mér að hafi verið einn jólasiðanna í verkunum á Jarðbrú og jafnvel kom fyrir að við systkinin brugðum á leik í fjósinu og pökkuðum fóðurblönduskömmtum inn í bréfpoka og létum síðan kúnum eftir að sleikja bréfið utan af fóðurblöndunni!

En aftur að þessum fræga mjaltatíma. Þegar mjaltir voru langt komnar tók ég til við að gefa hey og fór mikinn. Í fjósinu á Jarðbrú hagaði þannig til að fara þurfti eftir fóðurgangi í gegnum hurðagat milli gamla og nýja fjóss og af einhverjum ástæðum er gatið ekki sérlega hátt. Hæð mín hafði fram að þessu ekki verið vandamál, frekar en flestra annarra í minni ætt,. En þegar ég geystist með eitt fangið úr hlöðunni brá svo við að ég rak mig harkalega upp undir í hurðargatinu og fleytti kellingar eftir jötunni fyrir framan kýrnar. Óskar var kominn fram í mjólkurhús að þvo mjaltatæki og engin urðu vitni að hinu undraverða slysi, nema kýrnar. Þær urðu eðlilega furðu lostnar á framferði jólabarnsins sem lagðist steinrotað í jötu og sá ekkert nema stjörnur, tígla og sólir!

Ég rankaði við mér eftir stundarkorn þegar forvitin kúanef snösuðu af hrúgaldinu og þar sem ég hafði ekki ætlað mér að liggja í roti alla jólanóttina þá var ekki um annað að gera en harka af sér og koma heygjöfinni af. Ég fann að kúlan á hausnum stækkaði en ég ákvað að láta sem ekkert hefði í skorist. Hamaðist sem aldrei fyrr við heygjöfina og velti því fyrir mér hvort ég hefði virkilega stækkað svona mikið á þennan veginn á haustmánuðum í skólanum í Ólafsfirði!

Mér fannst svitinn boga af mér en fékk staðfestingu á að eitthvað annað var á ferð niður andlitið á mér þegar Óskar kom úr mjólkurhúsinu. "Hvað er eiginlega að sjá þig drengur," sagði hann og um leið tók ég eftir að fjósgallinn var hægt og hægt að skipta um lit enda streymdi blóðið úr hausnum á mér.

Nú varð uppi fótur og fit. Ég dreif mig strax í hús og Guðrún mágkona mín stjórnaði fyrstu aðgerðum á bráðamótttökunni. Foreldrar mínir komu í þennan mund úr jólamessu á Dalvík og þótti jólahaldið á Jarðbrúarheimilinu hafa tekið skyndilega vinkilbeygju á meðan þau brugðu sér af bæ. Héraðslæknirinn á Dalvík var rifinn frá jólarjúpunum og í símann en vildi gjarnan fá að ljúka rjúpunum áður en hann tæki til við að sauma saman hausinn á sveitapiltinum.

"Haldið þið að hann lifi þetta ekki af á meðan ég borða jólasteikina," spurði Eggert læknir og boðaði sjúklinginn á stofu þegar hann hefði lokið rjúpum og eftirréttum. Borðhaldinu á Jarðbrú var nú frestað á meðan haus á mér yrði rimpaður saman. Á meðan mátti ég sitja undir háðsglósum um að það væri varla hægt að trúa því að ég hafi rekið mig upp undir og að ekki yrði fagur á mér skallinn þegar þar að kæmi!

En enn sem komið er hefur hár mitt ekki lagt svo mikið á flótta að ummerkin eftir aðfangadagskvöldið forðum komi í ljós. Eggert læknir tók mér ljúfmannlega á læknastofunni og gekk frá 10 sporum í höfuðleðrið. Viðeigandi hippaband fékk ég um höfuðið og hef síðan ekki verið jafn framúrstefnulegur í útliti á jólanótt.

Þegar heim á Jarðbrú var komið var tekið til við borðhald, þrátt fyrir að talsverð seinkun hafi orðið á. Því lauk áfallalaust, sem og uppvaski. Næsti leikur er öllum jólaunnendum kunnur en varla hafði heimilisfólkið sest niður við jólakortalestur og pakkaopnun þegar húsið varð almyrkvað.

Gerður var út leiðangur í aðaltöfluna en út úr henni barst reykur og neistaflug. Við fullvissuðum okkur um að ekki væri laus eldur í töflunni en augljóst var að engu tauti varð við öryggi komið. Hér þurfti rafvirkja við og nú tók ég eftir að foreldrum mínum þótti orðið nóg um útköll iðnaðarmanna á Dalvík vegna óvæntra atburða á Jarðbrúarheimilinu.

Við ákváðum að ljúka við jólapakka að mestu við kertaljós áður en hugað yrði að rafmagnsmálum. Þessu næst var hringt í Helga Indriða og hann sóttur til Dalvíkur til rafmagnstöfluviðgerða. Ekki sýndist mér illa liggja á Helga, frekar en fyrri daginn, og eftir að hafa tekið úr töflunni sviðin öryggi og leiðslur kom hann rafmagni á að nýju.

Orð hafði rafvirkinn síðar á að þetta hafi verið með eftirminnilegri jólanóttum því ekki hafi hvarflað að honum að hann kæmist í sveitasæluna á sjálfa jólanótt. Helga hefur sennilega líkað heldur vel að finna hátíðleikann í sveitinni. Mig minnir að það hafi verið langt liðið á nótt þegar hefðbundinni dagskrá á aðfangadagskvöld lauk á Jarðbrúarheimilinu. Þetta eru í mínum huga iðnaðarmannajólin á Jarðbrú - þegar á þurfti að halda bæði héraðslækni og rafvirkja til að komist yrði í gegnum jólahaldið.

Svona viðburðir lifa eðlilega í minningunni og söguna um rothöggið í fjósinu get ég auðveldlega sannað - þegar ég fæ skalla!

Jóhann Ólafur Halldórsson

Birt með leyfi jólavefs Júlla






×