Handbolti

Róbert: Maður labbar út af vellinum með skömm

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
„Þetta var bara hryllingur,“ sagði Róbert Gunnarsson, línumaður Íslands, við Vísi eftir átta marka tapið gegn Svíum í fyrsta leik liðsins á HM í kvöld. „Þetta var náttúrlega ekki eins og við vildum byrja mótið og maður labbar með skömm út af vellinum.“

Ísland átti aldrei möguleika í Svíþjóð í kvöld, en hvað var það sem klikkaði? „Þetta er samansafn af mörgum þáttum. Við eigum rosa mörg stangarskot og klikkum mikið úr dauðafærum. Þá förum við að puða alltof mikið og spilum ekki sem lið,“ sagði Róbert sem efaðist um að menn væru ekki tilbúnir andlega í leikinn.

„Mér finnst mjög ólíklegt að það sé stór þáttur í kvöld þar sem við erum búnir að spila marga leiki á mörgum stórmótum. Þetta er týpískt fyrir okkur: Við hefðum getað unnið þennan leik með tíu en svo gat hann farið eins og hann fór í kvöld.“

„Það sést bara að við spiluðum alveg hræðilega. Við hefðum getað spilað eins og við gerðum í Danmörku. Þá hefði þetta farið öðruvísi.“

Ísland var mjög óheppið í leiknum og átti fjöldan allan af skotum í tréverkið. „Ég er ekki að segja að við töpuðum þetta út af einu stangarskoti eða dómurunum, en þetta er oft keðjuverkun. Þetta féll engan veginn með okkur í dag. Eins og oft áður vorum við sjálfum okkur verstir,“ sagði Róbert Gunnarsson.

Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.

Ekki missa af neinu sem gerist á HM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn:sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×