„Í þeim öldusjó sem Hanna Birna er núna í, heldurðu ekki að hún hefði alla vel þegið stuðningsyfirlýsingu frá flokknum?“
„Ég held nú að Hanna Birna geri sér líklega best grein fyrir því að hennar traust hefur skaðast af þessu máli. Hún hefur viðurkennt að mistök voru gerð, hún hefur jafnframt beðist afsökunar á samskiptum sínum við lögreglustjórann. En Hanna Birna er stjórnmálamaður sem hefur starfað lengi í stjórnmálum og ég þekki vel, bæði þegar hún var á sveitastjórnarstiginu og eftir að hún kom hingað inn á þing. Ég hef starfað með henni sem varaformanni Sjálfstæðisflokksins og ég get sagt að ég beri til hennar gott traust til að halda sínum stjórnmálastörfum áfram,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

„Ég hygg að hún hafi eftir bestu getu greint þingflokknum frá stöðu málsins á hverjum tíma eins og hún gat.“
Bjarni óttast ekki að málið komi til með að skaða Sjálfstæðisflokkinn þó pólitísk staða Hönnu Birnu hafi vissulega látið á sjá. Hann telur að Hanna Birna eigi afturkvæmt á Alþingi.
„En hún er hinsvegar öflugur fulltrúi okkar Sjálfstæðismanna og á rétt, eins og aðrir, ef hún kýs, að endurheimta traustið og láta á það reyna, koma og starfa fyrir þá sem kusu hana þing. Þannig að mér finnst það alveg standa opið fyrir hana,“ segir Bjarni.