Keppni í A- og B-riðli á HM í handbolta í Katar lauk í dag en Brasilía og Túnis voru síðustu þjóðirnar úr þessum riðlum til þess að tryggja sér farseðil í sextán liða úrslitin.
Eftir leiki dagsins er ljóst hvaða þjóðir mætast í fyrstu fjórum leikjunum í sextán liða úrslitunum en þeir munu allir fara fram á sunnudaginn.
Strákarnir hans Patreks í Austurríki mæta gestgjöfunum frá Katar í sextán liða úrslitunum en Austurríki væri að fara í leik á móti Slóveníu hefði liðið unnið Makedóníu í lokaleiknum í dag.
Heimsmeistarar Spánverja mæta Túnis og þá mætast Slóvenía og Makedónía í uppgjöri tveggja þjóða úr gömlu Júgóslavíu.
Vinni íslenska landsliðið sinn leik á móti Egyptum á morgun, tryggir liðið sér þriðja sætið í sínum riðli. Þá myndu annaðhvort heimsmeistarar Spánar eða Túnis bíða íslenska liðsins kæmist það í gegnum sextán liða úrslitin.
Leikir sunnudagsins í sextán liða úrslitum HM í handbolta:
Spánn - Túnis
Króatía - Brasilía
Austurríki - Katar
Slóvenía - Makedónía
