Erlent

Enginn setur Pútín úrslitakosti

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Putin, forseti Rússlands.
Vladimir Putin, forseti Rússlands. Vísir/EPA
Talsmaður stjórnvalda í Moskvu segir að Vladimir Pútín, forseti Rússlands, verði ekki nauðbeygður til friðar í Úkraínu. Í viðtali í útvarpi í Rússlandi gaf Dmitry Peskov lítið fyrir vagnaveltur um að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefði sett forsetanum úrslitakosti varðandi friðarviðræðurnar.

„Það setur enginn forsetanum úrslitakosti og það gæti það enginn þó hann vildi,“ sagði Peskov í viðtali við Govorit Moskva útvarpsstöðina, samkvæmt Reuters fréttaveitunni.

Merkel og Francois Hollande ræddu við Pútín í Moskvu á föstudaginn um samkomulag um vopnahlé. Eftir símafund þeirra þriggja auk Petro Poroshenko, forseta Úkraínu, á föstudaginn, stendur til að þau fundi aftur í Hvíta-Rússlandi á miðvikudaginn.

Pútín hefur þó sett þau skilyrði fyrir þann fund að deiluaðilar samþykki nokkur atriði frá Rússum.

Rússar hafa verið sakaðir um að útvega aðskilnaðarsinnum í Austur-Úkraínu vopn, búnað og menn. Rússar hafa ávalt neitað því. Stjórnvöld í Kænugarði sögðu þó í dag að minnsta kosti 1.500 rússneskir hermenn hefðu farið yfir landamærin um helgina. Þeir eru sagðir hafa tekið með sér þungavopn, eldflaugar og ýmsar birgðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×