Fótbolti

Gullboltinn kælir niður Cristiano Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo hefur ekki skorað í síðustu þremur deildarleikjum Real Madrid og er á síðasta mánuði næstum því búinn að missa niður þrettán marka forskot sitt á Lionel Messi í baráttunni um markakóngstitilinn.

Cristiano Ronaldo fékk Gullboltann á dögunum, sem besti knattspyrnumaður heims en þetta var annað árið í röð sem hann fær þessi virtu verðlaun. Verðlaunin eru hinsvegar ekki að hafa góð áhrif á hann inn á vellinum alveg eins og gerðist í fyrra.

Tölfræðin sýnir það nefnilega svart að hvítu að portúgalski knattspyrnumaðurinn er að skora mun minna í fyrstu tíu leikjum hans eftir afhendingu Gullboltans heldur en í tíu síðustu leikjunum fyrir verðlaunaafhendinguna.

Í ár hefur Cristiano Ronaldo "aðeins" skorað 4 mörk í fyrstu 10 leikjum sínum eftir að hann fékk Gullboltann annað árið í röð en hafði skorað 12 mörk í 10 leikjum fyrir verðlaunin.

Í fyrra skoraði Cristiano Ronaldo 6 mörk í fyrstu 10 leikjum sínum eftir að hann fékk Gullboltann en hafði skorað 14 mörk í 10 leikjum fyrir verðlaunin.

Margir leikmenn kalla reyndar ekki á gagnrýni þrátt fyrir að markaskor þeirra "detti" niður í 4 mörk í 10 leikjum en Cristiano Ronaldo hefur sett há viðmið með frammistöðu sinni síðustu ár og því eru menn fljótir að taka eftir því þegar kappinn skorar ekki í hverjum leik Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×