Fótbolti

Alfreð fékk ellefu mínútur í jafntefli Real Sociedad

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Vísir/Getty
Alfreð Finnbogason fékk ellefu mínútur inn á vellinum í kvöld þegar Real Sociedad gerði 2-2 jafntefli við Almería á útivelli í spænsku úrvalsdeildinni.

Alfreð Finnbogason bíður því enn eftir fyrsta marki sínu í spænsku úrvalsdeildinni en hann hefur nú tekið þátt í sextán deildarleikjum á Spáni án þess að skora.

Imanol Agirretxe, framherji Real Sociedad og sá sem öðrum fremur heldur Alfreð út úr byrjunarliðinu skoraði fyrra mark liðsins í leiknum.

Alfreð Finnbogason kom inná fyrir Chori Castro á 79. mínútu leiksins en staðan var þá orðin 2-2.

Almería komst tvisvar yfir í leiknum, fyrst á 5. mínútu með marki Verza úr vítaspyrnu og svo með marki Tomer Hemad fimm mínútum fyrir hálfleik.

Imanol Agirretxe jafnaði metin í 1-1 á 27. mínútu og Sergio Canales skoraði síðan seinna mark Real Sociedad á 48. mínútu en það mark átti eftir að tryggja liðinu eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×