Fótbolti

Arnór lánaður til Moskvu fram á sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Smárason.
Arnór Smárason. Vísir/Getty
Arnór Smárason er á leiðinni til rússneska félagsins Torpedo Moskvu en heimasíða sænska félagsins Helsingborgs IF segir frá því í dag að íslenski miðjumaðurinn sé á förum frá félaginu til Rússlands.

Arnór hefur verið í herbúðum Helsingborgs IF frá árinu 2013 og hefur einnig verið í kringum íslenska landsliðið undanfarin ár.

Helsingborg lánar Arnór til Torpedo Moskvu til 15. júlí en rússneska liðið er í tólfta sæti í deildinni eða rétt fyrir ofan fallsætin.

„Þetta verður skemmtilegt ævintýri. Þetta er ein af stærstu deildunum í Evrópu og gott tækifæri fyrir mig að sýna hvað ég get," sagði Arnór við hif.se.

Arnór Smárason var með 3 mörk og 1 stoðsendingu í 26 leikjum með Helsingborg á síðustu leiktíð en fékk ekki alltof mörg tækifæri hjá þjálfaranum Henrik Larsson.

Henrik Larsson tilkynnti síðan á dögunum að hann vildi að Arnór fyndi sér nýtt félag. Arnór var enn á samningi hjá Helsingborg og svo fór að hann fer á láni til Rússlands.

Liðin hans Arnórs Smárasonar:

ÍA Akranes 1996 - 2003

Molde FK (2003)

ÍA Akranes 2003 - 2004

SC Heerenveen (2004 - 2010)

Esbjerg fB 2010 - 2013

Helsingborgs IF 2013 - 2015

Torpedo Moskva 2015




Fleiri fréttir

Sjá meira


×