Fótbolti

Calderón: Mourinho þoldi ekki pressuna hjá Real Madrid

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það er sjaldan lognmolla í kringum José Mourinho.
Það er sjaldan lognmolla í kringum José Mourinho. vísir/getty
Ramón Calderón, fyrrverandi forseti Real Madrid, segir að José Mourinho hafi ekki ráðið við pressuna sem fylgir því að þjálfa spænska stórliðið.

„Það er mjög, mjög erfitt að vera knattspyrnustjóri Real Madrid. Sjáið bara Mourinho,“ sagði Calderón í samtali við BBC.

„Hann er vanur að starfa undir pressu en hann réði ekki við hana hjá Real Madrid,“ bætti Calderón við en Mourinho yfirgaf Madrídinga sumarið 2013 eftir þrjú ár við stjórnvölinn hjá félaginu.

Á þessum þremur árum vann Real Madrid Spánarmeistaratitilinn og spænska Konungsbikarinn en Mourinho tókst ekki að landa Meistaradeildartitlinum sem honum var ætlað að gera.

Sögusagnir voru um að Mourinho hefði lent upp á kant við nokkra lykilmenn Real Madrid undir lok stjórnartíðar sinnar en Calderón segir að allt hafi verið í kalda koli þegar Portúgalinn yfirgaf félagið.

„Þegar Mourinho fór var ástandið virkilega vont. Hann varð að yfirgefa félagið eftir stormasöm þrjú ár,“ sagði Calderón sem gegndi forsetastöðunni hjá Real Madrid á árunum 2006-2009, en á þeim tíma varð félagið Spánarmeistari í tvígang.

Calderón er öllu ánægðari með Carlo Ancelotti sem tók við knattspyrnustjórastöðunni af Mourinho sumarið 2013. Undir hans stjórn varð Real Madrid Evrópu- og bikarmeistari á síðasta tímabili.

„Hann hefur gert mjög góða hluti, ekki bara því hann vann Meistaradeildina heldur vegna þess að það er meiri ró og yfirvegun yfir öllu,“ sagði Calderón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×