Fótbolti

Luis Enrique: Messi er besti fótboltamaður sögunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fer hér framhjá þremur leikmönnum Manchester City.
Lionel Messi fer hér framhjá þremur leikmönnum Manchester City. Vísir/Getty
Luis Enrique, þjálfari Barcelona, sparaði ekki lofið á Lionel Messi eftir frammistöðu argentínska leikmansins á móti Manchester City í gærkvöldi.

Messi skoraði ekki en fóru engu að síður á kostum þegar Barcelona sló lið Manchester City út úr sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Luis Enrique er ekki aðeins á því að Lionel Messi sé besti knattspyrnumaður heims í dag því hann vill ennfremur meina að hann sé sá besti í sögunni. Messi lagði upp sigurmark Barcelona og fór hvað eftir annað illa með varnarmenn City.

City-liðið getur þakkað markverði sínum Joe Hart, að Messi skoraði ekki í þessum leik en það var oft vandræðalegt fyrir leikmenn ensku meistarana þegar Argentínumaðurinn var að sóla þá upp úr skónum.

„Við vitum öll hver Leo Messi er. Hann er án nokkurs vafa besti leikmaðurinn í heimi en hann er einnig sá besti í sögu fótboltans," sagði Luis Enrique eftir leikinn.

„Það augljóslega mikill plús fyrir okkur að hafa hann í okkar liði. Það þarf samt heilt lið með gott jafnvægi til að vinna titla og við erum að reyna að spila þannig núna," sagði Luis Enrique.

„Við hjá Barcelona erum heppin að hafa Leo með okkur. Við erum hinsvegar orðin svo vön því að geta treyst á hann og slíkt er stundum slæmt," sagði Luis Enrique.

„Það er samt áhugavert að Leo skoraði hvorki í fyrri né seinni leiknum en hann var samt besti leikmaðurinn í leikjunum," sagði Luis Enrique.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×