Miklar truflanir hafa verið í flutningskerfi Landsets eftir að óveðurslægðin kom upp að landinu um sexleytið í morgun. Veðurhæð jókst þá mjög mikið á skömmum tíma og olli það útleysingum á línum frá Neskaupstað og norður um til Laxárvatnslínu 1. Vatnshamralína leysti út korter yfir sjö, áður en Laxárvatnslína komst í rekstur, og við það urðu Snæfellsnes og Vestfirðir rafmagnslausir í um það bil hálftíma. Skemmdir virðast hafa orðið á Hrútartungulínu og straumlaust varð á sunnanverðum Vestfjörðum um kl 9:20.
Útsláttur hefur einnig orðið á Hrútatungulínu, Búrfellslínum og Kolviðarhólslínu og hafa stórir notendur orðið fyrir ítrekuðum truflunum en í skamman tíma í senn. Einnig hefur byggðalínuhringurinn rofnað nokkrum sinnum.
Að sögn vaktmanna í stjórnstöð Landsnets er þetta með mestu veðurhæð sem þeir sem þar vinna hafa séð og hafa óvenjumargar útleysingar átt sér stað á skömmum tíma í flutningskerfinu og er búist við áframhaldandi rafmagnstruflunum þar til veður gengur niður.
