Enski boltinn

Suarez fór frá Liverpool vegna ensku fjölmiðlanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez og Lionel Messi.
Luis Suarez og Lionel Messi. Vísir/Getty
Luis Suarez, fyrrum framherji Liverpool og núverandi leikmaður spænska liðsins Barcelona, segist hafa yfirgefið Liverpool síðasta haust vegna þess að hann var orðinn þreyttur á ensku fjölmiðlunum.

Luis Suarez var í þrjú og hálft ár hjá Liverpool og komst á þeim tíma í hóp með bestu fótboltamönnum heims. Hann var frábær síðustu tímabilin sín hjá Anfield.

„Ég veit ekki hvort að það sé herferð í gangi gegn mér í ensku pressunni en það er ekki hægt að sjá annað en að þeir sakni mín. Þeir gagnrýna mig svo mikið að þeir reyna að finna eitthvað sem er ekki þar," sagði Luis Suarez í viðtali við beIN SPORTS.

„Ég sagði hingað og ekki lengra. Ég sagði þeim að ég hafi farið frá Englandi af því að ég var orðinn þreyttur á þeim. Samt eru þeir ennþá að leita að mér," sagði Suarez og vísar þá til umfjöllunar um að hann hafi átt að hafa reynt að bíta Martin Demichelis í Meistaradeildarleik Barcelona og Manchester City á dögunum.

„Ég er mjög ánægður hjá Barcelona. Draumur rættist hjá mér að spila fyrir besta félag í heimi og ég nýt þess í botn. Ég er að skila til liðsins og það róar mig og sýnir mér að ég er mikilvægur," sagði Suarez sem skoraði tvö mörk í sigrinum á Manchester City í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitunum Meistaradeildarinnar.

„Fjölskyldan er líka ánægð í Barcelona og nýtur þess að búa í borg sem við þekkjum. Börnin sóma sér vel í skólanum og konan mín er mjög ánægð," sagði Suarez.

Luis Suarez með syni sínum Benjamin Suarez og dótturinni Delfinu Suarez.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×