Veðurstofan hefur varað við vatnsflóðum, krapaflóðum og aurflóðum á morgun en mikilli rigingu er spáð sunnan- og suðaustanalnds með hlýindum síðdegis á morgun og fram á sunnudag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Almannavarnir segja að Þannig aðstæður geta skapast á nokkurra ára fresti. „Hafa skal þetta í huga áður en ferðalög eru skipulögð,“ segir á vef Almannavarna.
Fólki er ráðlagt að huga vel að frárennslislögnum og niðurföllum til að fyrirbyggja vatnstjón.
Í tilkynningunni er einnig varað við miklum vexti í ám í kring um Eyjafjalla- og Mýrdalsjökul og við sunnan- og suðaustanverðan Vatnajökul. Þá má búast við miklum leysingum um allt land þótt úrkoma verði mest sunnan og suðaustanlands.
Reiknað er með mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla sunnan og suðaustanlands og þar gæti sólarhringsafrennsli, sem er samanlögð úrkoma og snjóbráðnun, farið vel yfir 250 millimetra.
Frekari upplýsingar verða gefnar út um stöðuna á morgun.
