Eins og allir vita er Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta frá upphafi, í leikmannahópnum sem staddur er í Astana og mætir Kasakstan á morgun í undankeppni EM 2016.
Eiður Smári spilaði síðast leik fyrir Ísland í Zagreb á móti Króatíu í umspili fyrir HM 2014 og verða því 494 dagar frá síðasta landsleik Eiðs komi hann við sögu á morgun.
Eftir tapið í Zagreb í nóvember 2013 brast Eiður Smári í grát í viðtali við RÚV aðspurður hvort hann hefði verið að spila sinn síðasta landsleik. Hann hélt svo vera en lokaði þó engum dyrum.
„Þetta var bara erfið spurning og mikið tilfinningaflæði í gangi,“ segir Eiður Smári í viðtali við DV í dag.
„Það var líka erfitt að hafa tapað og ekki náð okkar markmiði. Svo kemur á mann þegar framtíðin er ekki ljós,“ bætir hann við.
Þjóðin má þó líklega ekki búast við öðru eins atviki því Eiður Smári segir léttur í bragði við DV: „Ég ætla ekkert að gera það að vana mínum að grenja í sjónvarpinu.“
