Búist er við að Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikkja, muni í fyrramálið skila inn nýrri áætlun til umbóta í þeirri von um að gríska ríkið fái frekari lán svo það geti forðast gjaldþrot. Tsipras mun á morgun funda með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, en talið er að hann muni skila inn áætluninni á fundinum.
Í samtali við gríska dagblaðið Kathimerini segir Tsipras að ekki verði gengið til viðræðna á fundinum. Þau muni ræða málefni er varða Evrópu og hvernig hægt sé að styrkja sambandið á milli landanna tveggja.
Ráðherrar evruríkjanna samþykktu í síðasta mánuði áform grísku stjórnarinnar um sparnað og umbætur í ríkisrekstri. Fengu Grikkir því framlengingu á lánum sínum til fjögurra mánaða en hefði ekki verið fallist á tillögur þeirra hefðu opinberir sjóðir þeirra líklega tæmst.
