Alfreð Finnbogason skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir Real Sociedad í 3-1 sigri liðsins á Córdoba í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Alfreð var búinn að spila í 580 mínútur fyrir Sociedad í deildinni án þess að skora en hann náði loks að brjóta ísinn í San Sebastián í kvöld.
Landsliðsframherjinn kom inn á sem varamaður á 89. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar skoraði hann þriðja mark Sociedad eftir sendingu frá Carlos Vela.
Florin Andone kom Córdoba, sem er í neðsta sæti spænsku deildarinnar, yfir á 12. mínútu en þá var botnliðið búið að missa varnarmanninn Aleksandar Pantic af velli með rauða spjaldið. Tveir félagar hans fuku svo af velli í seinni hálfleik en Córdoba lauk leik með aðeins átta leikmenn inni á vellinum.
Imanol Agirretxe jafnaði metin fyrir Sociedad á 31. mínútu og Gonzalo Castro kom Böskunum svo yfir á 75. mínútu. Alfreð rak svo síðasta naglann í kistu botnliðsins í uppbótartíma, eins og áður sagði.
Þetta var þriðji sigur Sociedad í röð en lærisveinar David Moyes eru nú komnir upp í 9. sæti deildarinnar.
Biðin á enda hjá Alfreð

Tengdar fréttir

Eiður Smári í hópnum á móti Kasakstan | Sölvi og Elmar meiddir
Landsliðsþjálfararnir Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck tilkynntu í dag hópinn sem mætir Kasakstan í undankeppni EM 2016 28. mars og Eistum í vináttuleik.