Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, segir írakskar öryggissveitir hafa frelsað borgina Tíkrít úr höndum ISIS-liða.
Harðir bardagar hafa staðið um borgina síðustu vikur, en liðsmenn ISIS náðu borginni á sitt vald í júní síðastliðinn.
Bandaríkjaher hefur framkvæmt fjölda loftárása á skotmörk ISIS í kringum borgina síðustu daga til að auðvelda írökskum öryggissveitum inngöngu í borgina.
Tíkrít er heimaborg Saddams Hussein, fyrrum einræðisherra landsins, um 160 kílómetrum norður af höfuðborginni Bagdad.
Al-Abadi fyrirskipaði Íraksher að endurheimta borgina þann 1. mars síðastliðinn og hafa átök um borgina staðið síðan.

