Handbært fé frá rekstri ríkissjóðs í janúar versnaði verulega miðað við sama mánuð á síðasta ári. Var það neikvætt um 51 milljarð króna, samanborið við 10,4 milljarða í janúar 2014.
Þetta skýrist að stærstum hluta með útgreiðslum vegna skuldaniðurfærslu ríkisstjórnarinnar, samkvæmt tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Þar kemur fram að útgreiðslan hafi verið gjaldfærð í lok 2014 en hafi komið til greiðslu í janúar. Á sama tíma lækkuðu innheimtar tekjur um 8,8 milljarða á milli ára en gjöldin jukust um 364 milljónir króna.
Skatttekjur og tryggingargjöld sem ríkið innheimti í janúar voru 15,8 prósent undir tekjuáætlun fjárlaga, eða 32 milljarðar króna. Það er samdráttur upp á 17,3 prósent á milli áranna 2014 og 2015.
Skattar á tekjur og hagnað námu 13,5 milljörðum sem er samdráttur um 33 prósent frá því í fyrra. Það er töluvert undir áætlun mánaðarins.
Í tilkynningunni er gerður fyrirvari við að „uppgjör janúarmánaðar felur yfirleitt ekki í sér miklar vísbendingar um hvernig árið í heild gæti átt eftir að standast áætlun fjárlaga“.
Handbært fé ríkissjóðs tekur dýfu vegna skuldalækkunarinnar
