Hnefaleikakappinn Manny Pacquiao hefur verið kærður af fólki í Nevadaríki í Bandaríkjunum fyrir að ljúga til um meiðsli í öxl sem hann átti við að stríða í bardaganum gegn Floyd Mayweather um helgina. Frá þessu er greint á vef BBC.
Íþróttaráð Nevadaríkis, NAC, segir að Pacquiao hafi ekki látið vita að hann væri meiddur áður en bardaginn hófst. Þessu er Pacquiao algjörlega ósammála.
Pacquiao er kærður fyrir að svíkja miðakaupendur, þá sem keyptu bardagann í sjónvarpi og milljónir manna sem veðjuðu á bardagann.
Sjá einnig:Vann Pacquiao bardagann svo eftir allt saman?
Verði Pacquiao fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsisdóm og sekt upp á 630.000 krónur. Sektin verður þó væntanlega ekki mikill hausverkur þar sem hann fékk ríflega 15 milljarða fyrir bardagann
Pacquiao kenndi meiðslum í öxl um tapið gegn Mayweather aðfaranótt sunnudags, en þau hindruðu hann frá því að geta notað hægri höndina.
Pacquiao gaf út yfirlýsingu eftir að kæran birtist, en í henni segir hann að lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hafi vitað af meiðslunum.
Hann fékk leyfi frá lyfjaeftirlitinu til að nota ákveðin efni til að styrkja öxlina í aðdraganda bardagans og verkjalyf á meðan honum stóð.
„Pacquiao fyllti spurningalistann frá okkur ekki út réttilega og var því óheiðarlegur. Tveimur tímum fyrir bardagann biður hann um verkjalyf. Það kemur okkur í mjög erfiða stöðu,“ segir Bob Bennett, framkvæmdastjóri NAC.
