Þór/KA og ÍBV skildu jöfn, 1-1, í lokaleik fyrstu umferðar Pepsi-deildar kvenna fyrir norðan í dag, en leikið var inni í Boganum á AKureyri.
Markalaust var í hálfleik en heimakonur tóku forystuna á 50. mínútu leiksins þegar Sarah Miller skoraði fyrir Þór/KA, 1-0.
Þremur mínútum síðar fékk Ágústa Kristinsdóttir, leikmaður Þórs/KA, gult spjald og sjö mínútum eftir það var hún fokin út af með annað gult og þar með rautt.
Manni fleiri náði Eyjaliðið að skora, en þar var að verki hin eldfljóta Shaneka Gordon. Hún skoraði jöfnunarmarkið, 1-1, á 66. mínútu og þar við sat.
Þetta var eina jafnteflið í fyrstu umferðinni og var ÍBV eina útiliðið sem skoraði mark.
Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af úrslit.net.
