Drög að samningnum voru send til fjölmiðla nú á níunda tímanum. Í tilkynningu frá VR segir að áfram verði unnið að útfærslu ýmissa atriða í samningnum en stefnt er að því að ljúka kjaraviðræðum í þessari viku.
Aðaláhersla er sögð lögð á hækkun lægri launa og að verja millitekjur. Stuðst er við taxtahækkanir og launaþróunartryggingu árin 2015 og 2016 en taxta- og prósentuhækkarnir árin 2017 og 2018.
Þá verða lágmarkslaun meðlima stéttarfélaganna, sem eru í dag 214 þúsund krónur, hækkuð um 86 þúsund krónur á samningstímanum. Þau verða 245 þúsund krónur á mánuði við gildistöku samningsins og 300 þúsund krónur á mánuði frá og með maí 2018.

Þann 1. maí þessa árs munu launataxtar hækka um 25 þúsund krónur. Byrjunarlaun afgreiðslufólks hækka að auki um kr. 3.400. Launaþróunartrygging annarra en þeirra sem taka laun samkvæmt töxtum verður 7,2 prósent fyrir laun að upphæð 300 þúsund krónur eða lægri, en fer svo stiglækkkandi með hærri tekjum. Launaþróunartryggingin verður aldrei lægri en þrjú prósent.
Þann 1. maí 2016 verður launaþróunartrygging 5,5 prósent, að lágmarki fimmtán þúsund krónur. Viðmiðunartímabil er 1. júní 2015 til 30. apríl 2016.
Þann 1. maí 2017 munu launataxtar hækka um 4,5 prósent, byrjunarlaun afgreiðslufólks hækka um 1.700 krónur að auki og almenn hækkun verður þrjú prósent.
Þann 1. maí 2018 munu launataxtar svo hækka um þrjú prósent og almenn hækkun verður tvö prósent, miðað við átta mánuði.
Lægstu taxtar VR hækka um 31,1 prósent á samningstímanum.