Skoðun

Opið bréf til fjármála- og efnahagsráðherra

Hjúkrunarfræðingar gjörgæsludeildar og vöknunar Landspítala í Fossvogi skrifar
Nú er liðin ein vika af verkfalli hjúkrunarfræðinga. Við sem störfum á gjörgæslu og vöknun á Landspítala í Fossvogi höfum á þeim tíma ítrekað þurft að bregðast við aðstæðum þar sem þörf var á skjótum viðbrögðum við miklu álagi. Sú öryggismönnun sem lagt er upp með í verkfalli hefur ekki nægt til að tryggja öryggi skjólstæðinga okkar og hefur reynst nauðsynlegt að óska eftir undanþágum til að mæta þörf fyrir aukinni mönnun. Samþykktar undanþágubeiðnir hjá okkur þessa fyrstu daga verkfallsins voru 52.

Hjúkrun á gjörgæslu og vöknun krefst mikillar sérþekkingar og áralangrar þjálfunar. Flestar innlagnir á gjörgæsluna eru bráðainnlagnir vegna slysa eða alvarlegra veikinda. Á deildinni liggja veikustu sjúklingar spítalans sem þurfa flókna meðferð, sérhæfða hjúkrun og eftirlit. Umhverfið er mjög tæknivætt og þar liggja t.d. sjúklingar í öndunarvélum.

Kröfur hjúkrunarfræðinga eru að menntun þeirra og ábyrgð verði metin til launa og dagvinnulaun þeirra verði sambærileg við aðrar háskólamenntaðar stéttir.

Við hvetjum fjármála- og efnahagsráðherra til að bregðast jafn skjótt við og hjúkrunarfræðingar gera í sína daglega starfi og  gangi til samninga við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga til að tryggja skjólstæðingum heilbrigðiskerfisins öfluga og örugga hjúkrun.

Við þrýstum á að samningar náist um samkeppnishæf laun þar sem mikil eftirspurn er eftir sérþekkingu okkar og starfskröftum, hérlendis sem og erlendis.

Hjúkrunarfræðingar gjörgæsludeildar og vöknunar Landspítala í  Fossvogi.




Skoðun

Sjá meira


×