Samninganefndir bæði BHM og hjúkrunarfræðinga funduðu með samninganefndum ríkisins í gær. Viðræðum við bæði félögin var slitið í gær án árangurs og nú virðist fátt geta komið í veg fyrir að stjórnvöld setji lögbann á verkfallið, jafnvel strax í dag.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra lét þau orð falla á Alþingi í byrjun mánaðar að hann gæti ekki útilokað lagasetningu. Á þriðjudag sagði hann svo í viðtali við fréttastofu RÚV að lausn í kjaradeilunni þyrfti að nást samdægurs eða daginn eftir. Gengi það ekki eftir, þyrfti að „leita annarra leiða.“
Kristján Þór vildi ekki tjá sig um stöðuna í gær eftir að fundur með hjúkrunarfræðingum bar ekki árangur og ekki hefur náðst í hann nú í morgun. Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segir hins vegar í samtali við RÚV í dag að enn verði að halda í þá von að samningar takist.
Forystumenn félaganna sjálfra eru ekki jafnvongóðir. Í samtali við Vísi í gær sagðist Ólafur G. Pétursson, formaður Félags hjúkrunarfræðinga, óttast það að til lagasetningar kæmi, miðað við ummæli stjórnvalda.

„Ég hef nú ekki viljað trúa því lengi vel að lýðréttindi væru ekki virt í þessu landi. En ráðamenn eru með hótanir uppi um það og það verðum við að taka alvarlega,“ sagði Páll.